Mín áskorun
Ég heiti Andriani og er 34 ára og á strák sem heitir Odysseus. Ég er frá Kýpur og maki minn er frá Krít í Grikklandi. Ég lærði efnafræði við háskólann í Patra.
Við höfum verið á Kýpur síðastliðin þrjú ár og síðustu fimm árin þar á undan bjuggum við á Krít þar sem barnið okkar fæddist. Á Krít vann ég tilfallandi störf og þar sem ég hafði enga starfsreynslu tengda efnafræði og gat ekki fundið störf við hæfi.
Stuttu áður en ég varð ólétt vann ég í apóteki í hálft ár við ótrygg vinnuskilyrði. Vegna mikillar samkeppni á vinnustaðnum var mér á endanum sagt upp vegna þess að ég gat ekki unnið 10-12 tíma á dag eins og ætlast var til. Á þeim tíma sótti ég nokkur netnámskeið til að byggja upp ferilskránna, einn daginn bað ég vinnuveitendur mína um að fá að fara heim eftir að hafa lokið 8 tíma vakt. Þeir voru ekki sáttir við þessa beiðni og í kjölfarið sannfærði samstarfsmaður minn þá um að ég væri ekki þess virði að halda mér og mér var sagt upp í júlí. Ég varð síðan ólétt í ágúst. Eftir það var enn erfiðara að fá vinnu. Maki minn sá okkur farborða en ég lagði eitthvað af mörkum með því að búa til og selja snyrtivörur að heiman.
Mín Leið
Eftir að ég fæddi hélt maki minn áfram að vinna en það var áskorun að framfleyta fjölskyldunni með einum launum. Ég heimsótti foreldra mína á Kýpur og frétti af starfi þar sem tengist náminu mínu. Ég fór í viðtal án þess að hugsa það til enda og fékk jákvæð viðbrögð frá vinnuveitanda. Við vildum ekki yfirgefa líf okkar á Krít þrátt fyrir að erfitt væri að fá vinnu og framfleyta fjölskyldunni. Við vorum mjög stressuð á þessum tíma: Ég var þrítug, án starfsreynslu og óörugg þar sem ég hafði engin atvinnutækifæri. Maki inn var líka í starfi sem tengdist ekki námi hans. Við ákváðum því á endanum að flytja til Kýpur.
Í viðtalinu hafði vinnuveitandi minn sagt mér almennt frá starfinu og hvaða laun ég fengi. Þegar ég tók til starfa þá var þessi lýsing á starfinu ekki í samræmi við þau verkefni sem ég var að vinna. Ég áttaði mig á því í lok mánaðarins að launin voru mun lægri en við sömdum um. Á því augnabliki fékk ég sjokk og áttaði mig á því að við hefðum flutt til annars lands til að fá vinnu sem stóðst ekki væntingar mínar, hvorki til starfsins né þeirra launa sem lofað hafði verið. Þessu til viðbótar var ég að takast á við mikinn þrýsting og andlegt ofbeldi á vinnustaðnum. Ég var þolinmóð vegna þess að ég hafði á tilfinningunni að annars vegar væri það mér að kenna að við fluttum til Kýpur og hins vegar vildi ég læra að lifa af á vinnumarkaði þar sem ég hafði aldrei fengið fasta vinnu áður. Á sama tíma þurfti ég sem móðir að finna jafnvægi og orku til að samþætta vinnu og móðurhlutverkið. Eftir fimm mánuði í þessu starfi fór ég í vinnuna einn morguninn og heyrði vinnuveitandann minn öskra á starfsfólkið. Samstarfsmaður minn sagði mér bara að leiða það hjá mér en hin stúlkan á vinnustaðnum var farin að gráta. Án þess að hugsa mig tvisvar um þá ákvað ég að segja upp. Ég sagði við sjálfan mig að ég vildi ekki upplifa slíkan dag aftur í lífi mínu. Ég skuldaði mér og barninu mínu að hætta og ég þakka syni mínum fyrir að ég hætti þennan dag.
Í kjölfarið fór ég að leita að nýju starfi á Kýpur. Ég notaði öll tengslanetin mín. Ég sagði öllum sem ég þekkti að ég væri að leita að vinnu. Öllum vinum mínum og ættingjum. Ég hef aldrei verið jafn ákveðin í að fá vinnu. Ég hringdi í fyrirtæki áður en þau auglýstu eftir fólki. Ég sýndi mikla þrautseigju og var tilbúin að ganga lengra en áður til að fá vinnu. Eftir tiltölulega stuttan tíma tókst mér að komast í atvinnuviðtal hjá lyfjafyrirtæki. Eftir nokkra daga höfðu þeir samband og buðu mér vinnuna.
Minn árangur
Ég hef unnið í fyrirtækinu í næstum þrjú ár og mér finnst ég vera metin af verleikum. Ég lít ekki á fyrri starfsreynslu mína sem mistök heldur sem lexíu um að taka meðvitaðar ákvarðanir í lífinu og vera góð fyrirmynd fyrir barnið mitt um að gera slíkt hið sama í framtíðinni. Áður var ég ekki viss með hæfni mína og kannski var það ein ástæða þess að ég fann ekki vinnu við hæfi. Eftir að hafa tekist á við aðstæður í fyrsta starfi mínu þá finnst mér ég standa betur með sjálfri mér og treysti mér til að takast á við þær áskoranir sem ég mæti. Ég þekki mína persónulegu styrkleika. Barnið mitt og maki minn gáfu mér styrk til að til að standa með mér og trúa á getu mína. Mér finnst ég samt enn vera hrædd við að taka áhættu en ég veit samt að ég get það er á hólminn er komið. Ég finn að það verður auðveldara fyrir mig í framtíðinni að mæta áskorunum og taka erfiðar ákvarðanir.